*

þriðjudagur, 22. september 2020
Innlent 20. apríl 2016 13:41

Erlend greiðslukortavelta eykst um 55%

Mars er fimmti mánuðurinn í röð þar sem greiðslukortavelta vegna flugferða meira en tvöfaldast frá fyrra ári.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Samkvæmt upplýsingum frá Rannsóknarsetri verslunarinnar nam erlend greiðslukortavelta í mars síðastliðnum tæpum 15 milljörðum króna samanborið við 9,7 milljarða í mars 2015. Um er að ræða 55% aukningu á milli ára.

Sé litið á fyrsta ársfjórðung í heild nam kortavelta erlendra ferðamanna um 40 milljörðum króna, það gerir 61% aukningu á milli ára en kortaveltan var 24,7 milljarðar á fyrsta ársfjórðungi árið 2015.

Erlend kortavelta í mars jókst í öllum útgjaldaliðum. Mikil aukning var í farþegaflutningum, eða 131% frá sama mánuði í fyrra. Erlendir aðilar greiddu í mars með kortum sínum alls 3,2 milljarða króna fyrir farþegaflutninga, en til að setja vöxt undanfarinna missera í samhengi má nefna að kortavelta í sama flokk nam 3,7 milljörðum allt árið 2013. 

Þá var í mars töluverð aukning í kortaveltu ferðamanna í verslun og versluðu ferðamenn fyrir rúmlega 1,7 milljarð, sem er 40% meira en í sama mánuði í fyrra.

Í mars komu um 116 þúsund ferðamenn til landsins um Leifsstöð samkvæmt talningu Ferðamálastofu, 38% fleiri en í sama mánuði í fyrra. Til samanburðar eru það fleiri ferðamenn en komu í júní 2014, þriðja fjölmennasta ferðamannamánuði þess árs.

Kortavelta eftir þjóðerni

Ef miðað er við fjölda erlendra ferðamanna um Keflavíkurflugvöll greiddi hver þeirra að jafnaði með  greiðslukorti sínu fyrir um 130 þús. kr. í mars, líkt og í febrúar síðastliðnum. Það er um 12% hærri upphæð en í mars í fyrra. Með því að leiðrétta þessa upphæð fyrir verðlagsbreytingum síðustu 12 mánaða nam aukningin um 11% á milli ára.

Líkt og í febrúar keyptu ferðamenn frá Sviss að jafnaði fyrir hæstu upphæðir með greiðslukortum eða 345 þús. kr. á hvern ferðamann. Rússar eru í öðru sæti með 245 þús. kr. á hvern ferðamann og Kanadamenn koma fast á hæla þeirra með 243 þús. kr.