Allar erlendar viðmiðunarvísitölur sem Íslensk verðbréf styðjast við lækkuðu í síðustu viku og lækkaði heimsvísitalan MSCI um 1,6%. Mest lækkaði finnska vísitalan HEX25, um 4,93% og minnst lækkaði japanska vísitalan Nikkei, um 0,52%. S&P500 í Bandaríkjunum lækkaði um 1,99%. Þetta kemur fram í vikulegum Markaðsfréttum Íslenskra verðbréfa.

Þar segir einnig að hagvöxtur í Kína hafi ekki mælst jafn lítill í 3 ár. Í kjölfar hagvaxtatalna lækkaði heimsmarkaðsverð á olíu þar sem Kína er með mestu orkunotkun heims.

Enn sem fyrr er skuldakreppan í Evrópu stór áhrifaþáttur lækkunar erlendra hlutabréfa. Haft er eftir framkvæmdastjóra Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, Christine Lagarde, að þó svo að Ítalía og Spánn hafi fengið aðstoð sjóðsins er hagkerfum heimsins enn ógnað af skuldakreppunni.