Það sem af er degi hefur hlutabréfverð á Norðurlöndunum hækkað um 0,2% - 0,7% eftir verulega lækkun í gær, að sögn greiningardeildar Glitnis.

?Aðrir markaðir í Evrópu hafa lækkað lítillega í dag en fjárfestar hafa í auknum mæli selt hlutabréf á erlendum mörkuðum og keypt skuldabréf eða ávaxtað fjármuni sína á peningamarkaði. Fjárfestar virðast nú áhættufælnari en áður vegna væntinga um aukna verðbólgu, hærri vexti og þar af leiðandi minnkandi hagvöxt. Lækkun hlutabréfaverðs endurspeglar þannig væntingar um minni hagnað fyrirtækja á komandi misserum," segir greiningardeildin.

Verð á olíu lækkar

Verð á norðursjávarolíufatinu hefur lækkað um 4,5% undanfarna 5 daga og kostar fatið orðið 66,1 bandaríkjadal.

?Í kjölfar birtingar skýrslu alþjóða orkumálastofnunarinnar, sem birt var í gær, um að eftirspurn eftir olíu yrði minni í ár en áður var gert ráð fyrir lækkaði verð á olíu enn frekar. Stofnunin gerir nú ráð fyrir að eftirspurnin á dag verði um 1,24 milljónir fata en áður var gert ráð fyrir að spurn eftir olíu yrði um 1,25 milljónir fata á dag," segir greiningardeildin og bætir við:

?Til viðbótar er birgðastaða Bandaríkjanna og Asíu með besta móti og er því ekki gert ráð fyrir birgðavandamálum í sumar. Næsti samráðsfundur OPEC er í september og má því gera ráð fyrir að nægt framboð á olíu sé tryggt til skemmri tíma, svo lengi sem náttúruhamfarir eða stríð setja ekki strik í reikninginn. ?