Innlán erlendra aðila í íslenska bankakerfinu hafa aukist gríðarlega hratt undanfarið og nema nú 801 milljörðum króna og er langstærsti hlutinn inni á innlendum gjaldeyrisreikningum eða 791 milljarðar. Undanfarið ár hefur upphæðin meira en fjórfaldast, en í maí 2005 námu innlánin rúmum 37 milljörðum króna og hafa því meir en tuttugfaldast á tveimur árum.


Greiningardeild Landsbankans segir aukninguna tilkomna vegna aukinnar áherslu viðskiptabankanna á fjölbreytta fjármögnun m.a. í ljósi gagnrýni erlendra greinenda á hve mikið íslensku bankarnir reiddu sig á skuldabréfaútgáfu í erlendri mynt.


Innlánsreikningur Landsbankans í Bretlandi, Icesave, hefur til að mynda vaxið gríðarlega hratt frá því að honum var hleypt af stokkunum fyrir tæpu ári síðan. Viðskiptavinirnir eru yfir 90 þúsund talsins og innstæða þeirra er um 3,4 milljarða punda, sem jafngidir 428 milljörðum íslenskra króna. Þessi reikningur einn og sér telur þannig meira en helming allra innlána erlenda aðila í bankakerfinu.