Sú lækkun sem varð á innstæðum erlendra aðila í íslenskum fjármálafyrirtækjum frá júlí 2010 og fram til loka janúar 2011 má að mestu rekja til þess að íslenskur banki leysti upp erlent dótturfélag sitt sem átti innstæður í bankanum. Við breytinguna færðist eignarhald á innstæðunum yfir til bankans í stað þess að vera flokkaðar sem eign dótturfélagsins.

Þetta kemur fram í svari Seðlabanka Íslands við fyrirspurn Viðskiptablaðsins. Bankinn segist ekki geta greint frá um hvaða fyrirtæki sé að ræða. Viðskiptablaðið greindi frá því í lok mars að innlán erlendra aðila á Íslandi hafa dregist saman um 57% á umræddu tímabili. Þau voru 86,1 milljarðar króna í mars 2010 en 37,2 milljarðar króna í lok janúar.