Erlend lán heimila héldu áfram að aukast í nóvember, að sögn greiningardeildar Glitnis, en þau jukust um 11% milli mánaða, og námu 125,5 milljörðum króna við lok mánaðarins. Ásamt því að útlánin jukust má rekja aukninguna til gengisveikingar krónunnar í mánuðinum, en krónan veiktist um tæp 5% frá upphafi til loka mánaðar.   “Alls námu skuldir heimilanna við bankakerfið um 824 milljörðum króna í nóvember sem er um 20,5% meira en á sama tíma í fyrra. Athyglisvert er að hlutur erlendra skulda heimila af heildarskuldum þeirra við innlánsstofnanir hefur farið vaxandi frá upphafi ársins 2006.   Í nóvember nam þetta hlutfall rúmlega 15%, en til samanburðar nam það um 4% í upphafi ársins 2006 og tæplega 10% í upphafi þessa árs. Þá kemur fram í tölum Seðlabankans að af erlendum skuldum heimila eru um 33 milljarðar króna vegna húsnæðislána, eða rúmlega 26%.”