Samvinnufélagið Auðhumla, móðurfélag Mjólkursamsölunnar, hagnaðist um 357 milljónir króna á síðasta ári og var hagnaðurinn tæplega tvöfalt hærri en árið á undan, nam 32,7 milljörðum og jókst um 1,7 milljarða milli ára. Þar af nam sala erlendis 3.089 milljónum og jókst um 418 milljónir.

Kostnaður vegna launa hækkaði um 43 milljónir, nam 4,7 milljörðum, og kostnaðarverð seldra vara var 24,2 milljarðar og hækkaði um 1,4 milljarða. EBITDA nam 747 milljónum samanborið við 555 milljónir árið 2019.

Innan samstæðu Auðhumlu má finna MS, nokkur fasteignafélög og Ísey útflutning ehf. Þá á félagið rúmlega helming í Ísey Skyr bar, hluturinn er metinn á tæpar 55 milljónir króna, auk 15,7% í Fóðurblöndunni. Sá hlutur er metinn á 306 milljónir. Eignir námu 21,9 milljörðum í ársbyrjun, eigið fé var 11,9 milljarðar og skuldir 9,9 milljarðar.

„Á síðastliðnu ári hefur það komið bersýnilega í ljós hversu mikilvægt það er að stunda öfluga hagsmunagæslu fyrir íslenskan landbúnað, þar með talið mjólkurframleiðsluna. Með hugtakinu hagsmunagæslu, í þessu samhengi, er fyrst og fremst átt við grunnvinnu og málflutning, bæði munnlegan og skriflegan, með það að markmiði að verja umsamin og lögvarin starfsskilyrði landbúnaðar,“ segir í ávarpi Pálma Vilhjálmssonar, forstjóra MS, í ársskýrslu félagsins.