*

fimmtudagur, 25. febrúar 2021
Innlent 21. janúar 2021 11:38

Erlend skráning kunni að vera klók

Efnahags- og viðskiptanefnd þingsins telur mögulega rétt að stefna að skráningu Íslandsbanka á erlendan markað í náinni framtíð.

Jóhann Óli Eiðsson
Óli Björn Kárason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður efnahags- og viðskiptanefndar.
Haraldur Guðjónsson

Markmiðið með skráningu Íslandsbanka á markað á vormánuðum er að stuðla að hærra heildarverðmæti bankans til lengri tíma. Með skráningu sé komið á virkni og gagnsærri verðlagningu bréfanna án þess að skapa offramboð. Þetta segir í greinargerð meirihluta efnahags- og viðskiptanefndar um fyrirhugaða sölu á eignarhlut ríkisins í Íslandsbanka.

Líkt og fram kom á vef Viðskiptablaðsins fyrr í dag mælist nefndin til þess að sett verði lágmark og hámark á þann hlut sem boðinn verður til sölu. Fjórðungs til 35% hlutur er nefndur í dæmaskyni í því samhengi. Þá er mælst til þess að hámark verði sett á hlut hvers tilboðsgjafa, „t.d. 2,5-3% af heildarhlutafé bankans.“

Í álitinu kemur einnig fram að mögulegt sé að Íslandsbanki geti greitt 3-4 milljarða króna í arð til núverandi eiganda án þess að arðgreiðslan muni hafa áhrif á verð þeirra hluta sem boðnir verða til sölu. Slík arðgreiðsla færi ekki gegn tilmælum fjármálaeftirlitsnefndar Seðlabanka Íslands og því eðlilegt og skynsamlegt að bankinn greiði út arð áður en til úboðs kemur.

„Skynsamlegt kann að vera að stefna að skráningu Íslandsbanka á erlenda markaði í náinni framtíð samhliða frekari sölu á eignarhlutum ríkisins. Nauðsynlegt er að auka áhuga erlendra fjárfesta á hlutabréfum íslenskra fyrirtækja með skráningu í öðrum löndum. Í því samhengi er einnig vert að benda á að tilkynningarskylda vegna nýfjárfestinga erlendra aðila dregur úr áhuga erlendra fjárfesta jafnt þegar kemur að fjárfestingu í skráðum og óskráðum félögum,“ segir í greinargerðinni. Skynsamlegt væri því að endurskoða reglur um tilkynningarskylduna óháð útboði og skráningu bankans.

Í greinargerðinni er rakið að skilyrði til skráningar virðist vera með besta móti um þessar mundir. Til að mynda hafi bréf í bönkunum tveimur á aðalmarkaði Nasdaq Iceland hækkað verulega frá miðju síðasta ári, Kvika um 79% og Arion um 39%. Þá hafi vísitölur innanlands og erlendis einnig hækkað.

„Hafa ber í huga að markaðsaðstæður geta breyst til hins verra fram að útboði. Gefi neikvæð þróun á fjármálamörkuðum tilefni til að ætla að ekki fáist ásættanlegt verð fyrir þá hluti í Íslandsbanka sem boðnir verða í almennu opnu útboði er rétt að endurskoða áætlanir um sölu bankans eða hætta við þær,“ segir í áliti meirihlutans.

Fjögur minnihlutaálit

Efnahags- og viðskiptanefnd telur níu menn og standa fimm þingmenn, allt stjórnarþingmenn, að áliti meirihlutans. Alls fylgja fjögur minnihlutaálit greinargerðinni, eitt frá hverjum flokki sem mynda minnihlutann. Í athugasemdum Oddnýjar G. Harðardóttur, fulltrúa Samfylkingar í nefndinni, er lagst gegn sölunni að sinni og í áliti Píratans Smára McCarthy er lagt til að „bíða með söluferlið“ þar sem „hvorki ráðherra, meiri hlutinn, né í raun nokkur annar hefur fært sannfærandi rök fyrir því að ábatinn [af sölunni] sé mikill“.

Álit Jóns Steindórs Valdimarssonar, fulltrúa Viðreisnar í nefndinni, er að stærstum hluta áþekkt áliti meirihlutans. Þar er þó lagt til að að hámarki verði fjórðungshlutur seldur, hver og einn tilboðsgjafi geti aðeins skráð fyrir tíu prósentum af því sem boðið verður út og að tilboð undir tíu milljónum króna muni ekki skerðast verði umframeftirspurn. Þá er lagt til að frumvarp um varnarlínu um fjárfestingabankastarfsemi verði afgreitt áður en til útboðs kemur.

„Verði sala nú til þess að lífeyrissjóðir eignis áhrifamikinn hlut í Íslandsbanka verða þeir mjög umsvifamiklir á íslenskum fjármálamarkaði sem viðskiptavinir bankanna, keppinautar þeirra og áhrifamikilir eigendur tveggja stórra banka. Ljóst er að fjárfestingaþörf lífeyrissjóðanna er mikil en samkeppnismál eru eitt þeirra meginatriða sem huga þarf að við uppbyggingu íslenska fjármálakerfisins,“ segir í áliti Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, fulltrúa Miðflokksins í nefndinni. Í áliti hans er fyrst og fremst kallað eftir því að heildarsýn fyrir fjármálamarkaðinn liggi fyrir til frambúðar áður en bankinn verður seldur.

Stikkorð: Íslandsbanki