Í dag voru gefin út erlend skuldabréf í íslenskum krónum fyrir alls 5 milljarða króna af hálfu lánasýslu Austurríkis og Deutsche bank. Í Hálffimmfréttum KB banka kemur fram að nú telur útgáfan alls um 80 milljarða króna sem er nær þrefalt meira en áætlanir Greiningardeildar um innflæði vegna stóriðju á þessu ári. Ljóst er að allir hvatar eru fyrir hendi að áframhald verði á útgáfunni þar sem nafnvaxtamunur við útlönd er 7,7% og almennt gert ráð fyrir því að krónan haldist sterk næstu 6-12 mánuði.

Jafnframt sendi Seðlabankinn frá sér harðan tón í Peningamálum um að stýrivaxtahækkanir kynnu að verða mun kröftugri en markaðsaðilar hefðu áður gert ráð fyrir. Ekki mun draga úr útgáfunni fyrr en hagnaður útgefandans mun dragast saman með því að nafnvaxtamunur við útlönd minnki frá því sem nú er, eða gengisáhætta endafjárfestisins aukist.