Erlend skuldastaða Íslands er afar há í alþjóðlegum samanburði og hefur hún hækkað hratt síðasta áratug eða svo, segir greiningardeild Glitnis.

?Erlendar skuldir þjóðarbúsins að frádregnum erlendum eignum námu í lok þriðja ársfjórðungs 1.217 milljörðum króna og hefur staðan versnað um 361 milljarð króna á árinu vegna meðal annars viðskiptahalla og gengisþróunar. Þetta má lesa úr tölum sem Seðlabankinn birti í gær. Er skuldahlutfallið komið í 110% af áætlaðri landsframleiðslu ársins. Ekkert land innan OECD er með hærra skuldahlutfall,? segir greiningardeildin.

Hún segir að ein meginástæða hárrar erlendrar skuldastöðu þjóðarbúsins sé þrálátur og mikill viðskiptahalli undanfarinna ára.

?Sá halli hefur komið til af tvenna þ.e. háu fjárfestingarstigi í hagkerfinu og lágu sparnaðarhlutfalli. Sérstaklega hafa einkaaðilar verið þar að verki en sparnaður þeirra er afar lágur,? segir greiningardeildin.

?Skuldir hins opinbera erlendis eru hins vegar afar litlar í alþjóðlegum samanburði og hafa fremur verið að lækka á undanförnum árum. Af heildarskuldum erlendis á einkageirinn ríflega 95% og í flestum tilfellum er um að ræða fyrirtæki með tekjur í erlendum gjaldmiðlum.

Skuldir þessar eru því gengistryggðar að stærstum hluta. Heimilin skulda lítið í erlendri mynt. Mest af þessum erlendu skuldum eru í gegnum innlenda banka eða um 83%,? segir greiningardeildin.