Hrein erlend staða þjóðarbúsins var neikvæð um rúmlega 29,3 milljarða króna, eða um 1% af landsframleiðslu í lok annars ársfjórðungs 2016. Kemur þetta fram í ritinu Fjárhagsstöðugleiki, sem gefið er út af Seðlabankanum. Staðan batnar milli fjórðunga, aðallega vegna útboðs sem Seðlabankinn hélt fyrir eigendur aflandskróna í júní sl. Vegna mismunar á útboðsgengi og álandsgengi lækkuðu krónueignir í eigu erlendra aðila meira en gjaldeyrisforði Seðlabanka Íslands.

Seðlabankinn segir hreina erlenda stöðu þjóðarbúsins afar hagstæða í sögulegu samhengi. Þá nema erlendar skuldir 109% af landsframleiðslu ef skuldir eignarhaldsfélaga gömlu bankanna og sértækra félaga eru undanskildar. Erlend skuld hins opinbera nemur 20% af landsframleiðslu en um helmingur erlendra skulda ríkisins er í krónum, þ.e. ríkisskuldabréf og víxlar í eigu erlendra aðila. Erlendar skuldir atvinnufyrirtækja hafa lækkað mikið og nema nú um 22% af landsframleiðslu.