Fjármagnsjöfnuður íslenska þjóðarbúsins var jákvæður um 120 milljarða króna á fyrsta ársfjórðungi. Þegar tekið er tillit til þátta á borð við gengis- og verðbreytingar eigna og skulda Íslands í útlöndum batnaði erlend staða þjóðarbúsins um 87 milljarða á ársfjórðungnum. Það jafngildir því að nettó skuldir Íslands við útlönd hafi minnkað um milljarð króna á dag á ársfjórðungnum.

Í nýrri Hagsjá Landsbankans er ljósi varpað á gjaldeyriskaup Seðlabankans og þau sett í samhengi við gengisþróun krónunnar og eigna- og skuldastöðu íslenska þjóðarbúsins gagnvart útlöndum. Hrein erlend staða þjóðarbúsins, þegar eignir og skuldir banka í slitameðferð eru dregnar frá, var jákvæð um 5,4 prósent í lok síðasta ársfjórðungs.

Á fyrsta ársfjórðungi þessa árs mældist þessi stærð jákvæð í fyrsta skipti síðan árið 2008. Miðað við tölur Seðlabankans hefur hrein erlend staða þjóðarbúsins, án innlánsstofnana í slitameðferð, batnað um 1.300 milljarða króna frá árinu 2008.

Viðskiptaafgangur eykst mikið

Í Hagsjánni kemur fram að velta með gjaldeyri á millibankamarkaði hafi numið 79 milljörðum króna í ágúst og að það sé þriðji mánuðurinn í röð sem veltan eykst verulega. Til samanburðar var veltan um 20 milljarðar króna í maí.

Viðskiptajöfnuður reyndist jákvæður um 27,5 milljarða króna á fyrri helmingi ársins, borið saman við 1,5 milljarðs halla á sama tímabili 2014. Þar munar mest um meiri afgang á þjónustuviðskiptum. Útflutningur jókst um 100 milljarða á fyrri helmingi ársins, en vöruinnflutningur jókst einnig.

Seðlabankinn hefur keypt rúmlega tvo milljarða evra frá árinu 2011, og hefur helmingur þeirra uppkaupa átt sér stað á þessu ári. Í Hagsjánni segir að af orðalagi fundargerðar peningastefnunefndar megi hugsanlega ráða að bankinn ætli að draga úr gjaldeyriskaupum í kjölfar losunar fjármagnshafta.