Allt frá fjórða ársfjórðungi 2008 hafa erlendar skuldir gömlu bankanna vegið þungt í tölum um erlenda stöðu þjóðarbúsins. Í Morgunkornum Greiningar Íslandsbanka segir að augljóslega skekki það verulega myndina og dragi upp mun dekkri stöðu en hún er í raun, en þessar skuldir gömlu bankanna muni smám saman hverfa á næstu misserum samhliða eignasölu og afskriftum á skuldum. Að frátöldum innlánsstofnunum í slitameðferð námu eignir þjóðarbúsins 2.470 milljörðum króna og skuldir 3.354 milljörðum króna og var því hrein erlend staða neikvæð um 845 milljónir króna í stað 9.945 milljónir króna. Þetta jafngildir um 54% af áætlaðri landsframleiðslu ársins og á þann kvarða hefur staðan ekki verið betri í rúm tíu ár. Ef gömlu bankarnir væru meðtaldir myndi þetta jafngilda sexfaldri áætlaðri landsframleiðslu ársins. Þó verður að hafa í huga að þótt kúfurinn af nettóskuldum gömlu bankanna þurrkist út stendur eftir meðal erlendra skulda sá hluti eigin fjár þeirra sem verður í eigu erlendra kröfuhafa eftir að slitameðferð þeirra lýkur.