Undirliggjandi hrein erlend staða þjóðarbúsins hefur batnað jafnt og þétt á undanförnum misserum og virðist nú vel innan viðráðanlegra marka. Fari svo að erlendir kröfuhafar slitabúa gömlu bankanna gefi eftir hluta innlendra eigna með einhverju móti gæti erlenda staðan að slitunum loknum verið hagfelldari en hún hefur verið síðustu áratugina. Þetta kemur fram í nýrri greiningu frá Greiningardeild Íslandsbanka.

Þar segir að hreina erlenda staðan hafi farið jafnt og þétt batnandi að undanförnu. Á þriðja ársfjórðungi hafi hún batnað um 31 milljarð króna, sem jafngildi 1,5% af vergri landsframleiðslu (VLF). Þar vóg 64 milljarða aukning gjaldeyrisforða þyngst, en á móti kom hækkun á bókfærðu virði innlendra eigna slitabúa. Er einnig bent á að í sérriti Seðlabankans um undirliggjandi erlenda stöðu þjóðarbúsins í mars 2013 hafi þessi stærð verið metin neikvæð um 60% af VLF og hafi hún samkvæmt því batnað um 15% af VLF, eða sem nemi um 130 milljörðum króna á tæpum tveimur árum. Segir þó að hafa beri í huga að nokkur óvissa ríki um þetta mat.

Einnig kemur fram að óhætt sé að segja að undirliggjandi erlend staða þjóðarbúsins virðist viðráðanleg miðað við þessar tölur og hún sé langt innan við þau 60% af VLF sem oft sé notað sem þumalputtaregla fyrir hámark þessa hlutfalls svo viðráðanlegt geti talist. Þá eigi eftir að taka tillit til þeirrar niðurfærslu á erlendum skuldum sem kunni að felast í eftirgjöf einhvers hluta þeirra innlendu eigna slitabúa gömlu bankanna sem komi í hlut erlendra kröfuhafa.

Lesa má greininguna í heild sinni hér .