Landsbanki Íslands hf. hefur náð samkomulagi um kaup á Kepler Equities SA (Kepler). Kepler er evrópskt verðbréfafyrirtæki sem áður starfaði undir nafninu Julius Bär Brokerage. Í fyrstu mun Landsbankinn kaupa 81% hlut í Kepler fyrir ?76,1 milljón (ISK 5,8 milljarða) en heildarverðmæti Kepler í viðskiptunum er ?94 milljónir (ISK 7,2 milljarðar). Landsbankinn mun á næstu 5 árum kaupa þá hluti sem eftir standa (19%), sem nú eru í eigu stjórnenda og starfsmanna, samkvæmt árangurstengdum kaupréttarsamningum segir í tilkynningu Landsbankans til Kauphallarinnar vegna kaupanna.

Erlend starfsemi Landsbankans eykst umtalsvert við kaupin á Kepler Equities og munu tekjur utan Íslands nema yfir 25% af heildartekjum bankans og þjónustutekjur hans aukast um 33%.

Eigið fé Kepler er ?59,8 milljónir og Q-hlutfallið því 1,57. Seljendur hlutabréfanna eru bandaríska fjárfestingarfyrirtækið Lightyear, svissneski bankinn Julius Bär og að hluta starfsmenn fyrirtækisins.

Kepler er leiðandi verðbréfafyrirtæki í Evrópu sem sérhæfir sig í sölu og miðlun hlutabréfa til fagfjárfesta auk þess að reka öfluga greiningardeild segir í tilkynningu Landsbankans til Kauphallarinnar.

Kepler hefur starfsemi í Amsterdam, Frankfurt, Madrid, Mílanó, París og Zurich. Félagið rekur verðbréfamiðlun í New York samkvæmt þjónustusamningi við Bank Julius Bär og fylgist félagið með og greinir yfir 430 fyrirtæki í Evrópu. Það telur yfir 800 fagfjárfesta meðal viðskiptavina sinna

Höfuðstöðvar Kepler eru í París. Starfsmenn eru samtals 240