Frá því í október hefur hugbúnaðarfyrirtækinu TM Software tekist að auka erlendar tekjur sínar verulega en þá voru þær um 2% af tekjum félagsins.

Að sögn Ágústs Einarssonar, framkvæmdastjóra TM Software, hafa erlendar tekjur verið um 20% af heildartekjum og maí fór þetta hlutfall upp í 30%.

„Við sjáum þetta ekki minnka og gerum ráð fyrir að þetta verði svona næstu mánuði. Á sama tíma hafa tekjur hér innanlands lækkað um 40% frá því um áramótin. Þetta segir aðeins til um í hvaða umhverfi við lifum og hve fljótt þarf að bregðast við,“ sagði Ágúst.

TM Software hefur einkum unnið með Java- og IBM-lausnir og er félagið líklega með stærsta Java-verkefnahóp á landinu. Sömuleiðis hefur verið mikil aukning í Microsoft-lausnum erlendis, svo sem fyrir Sameinuðu þjóðirnar og Microsoft.