Gjaldeyrisforði Seðlabankans dróst saman um rúma 5 milljarða króna á árinu 2007 og var um 162,9 milljarðar króna í árslok og er helsta skýringin gengisbreytingar á tímabilinu. Þetta þykir ekki óeðlilega mikil breyting á einu ári miðað við fyrri tímabil. Þetta kemur fram í bráðabirgða efnahagsreikningi bankans sem birtur var í gær.

Andvirði gullforða bankans jókst lítillega, eða um 371 milljón króna, og er nú 3,3 miljarða virði, og er skýringin hækkandi gullverð.

Erlend verðbréfaeign bankans jókst um rúmlega 17 milljarða á árinu, eða úr ríflega 121 milljarði króna í rúmlega 138 milljarða króna. Breytingar á gengi hafa áhrif á þessa þróun og sömuleiðis eru erlend verðbréf endurmetin mánaðarlega til markaðsvirðis. Um er að ræða gulltrygg verðbréf með topp lánshæfismat og fljótseld ef þörf krefur.

Á móti þessari aukningu kemur að innistæður Seðlabankans í erlendum böndum minnkuðu að sama skapi, eða úr úr 41,6 milljörðum króna í 19,3 milljarða króna. Á milli þessarar þróunar er samhengi, þ.e. bankinn hefur kosið fremur að taka út innistæður sínar og kaupa verðbréf í staðinn til að auka ávöxtun sína.

Gjaldeyrisstaða bankans gagnvart Alþjóðagjaldeyrissjóðnum lækkaði um 9%, eða um tæplega 188 milljónir króna, og er eingöngu um gengishreyfingu að ræða.

Kröfur bankans á aðrar fjármálastofnanir breyttust lítið varðandi markaðsskráð verðbréf en lán gegn veði jukust um tæplega 17,5 milljarða króna, eða úr 27 milljörðum í árslok 2006 í 44,5 milljarða í árslok 2007. Þessi mikla aukning stafar fyrst og fremst af fjölgun fjármálastofnana í þessum geira, og má nefna að nýlega hafa aðilar á borð við Saga Capital, Avant og VBS fjárfestingabanka komið inn á markaðinn með tilheyrandi fjárþörf. Eldri aðilar á þessum vettvangi eru m.a. Straumur-Burðarás, MP-fjárfestingarbanki o.sfrv.

Þá voru daglán Seðlabanka um sl. áramót rúmlega 4 milljarðar króna. Daglán er lán til einnar nætur ef fjármálastofnanir geta ekki klárað daginn, en.samkvæmt reglum má enginn aðili enda daginn í neikvæðri stöðu. Stofnanir tóku slík daglán gegn veði nokkrum sinnum á seinasta ári, og svo stóð á að seinasta dags ársins þurfti einhver aðili að taka slíkt lán.

Samkvæmt upplýsingum frá Seðlabankanum er mjög fátítt að þetta þurfi, gerist vart oftar en einu sinni í mánuði, en af ótilgreindum ástæðum hittist það svo á að einhver aðili þurfti á dagláni að halda á gamlársdag.