Aldrei hafa innlendir aðilar keypt meira af erlendum verðbréfum en í fyrra, segir greiningardeild Íslandsbanka.

Íslenskir aðilar keyptu fyrir 123,5 milljarða króna árið 2005 saman borið við 75,8 milljarða króna árið áður.

Erlend verðbréfakaup í desember eru þau næst mestu frá því að byrjað var að safna upplýsingum en þau náðu í hámarki í október 2005. Verðbréfakaupin í desember námu 18,4 milljörðum króna, samanborið við 10,5 milljarða króna á sama tíma árið 2004.

Lífeyrissjóðirnir eru stærstu fjárfestarnir hérlendis í erlendum verðbréfum en eign þeirra í erlendum verðbréfum hefur vaxið um 68 milljarða króna miðað við lok nóvember og vó rúm 24% af eignasafni þeirra, segir greiningardeildin.

Sjóðirnir hafa nýtt hátt gengi krónunnar til kaupa á erlendum verðbréfum. Einnig vegur útrás íslenskra fyrirtækja nokkuð þungt í tölum fyrir árið 2005 sem lýsir sér best í auknum kaupum á erlendum hlutabréfum í stað hlutdeildarskírteina verðbréfasjóða líkt og áður hefur verið raunin.

Mikil verðbréfakaup á seinni hluta ársins hafa vegið á móti áhrifum af útgáfu krónubréfa á gengi íslensku krónunnar, segir greiningardeild Íslandsbanka.

Alls voru verðbréfakaupin ríflega 78 milljarðar króna á sama tíma og gefin voru út krónubréf fyrir tæpa 147 milljarða króna. Í ljósi hás gengis krónunnar má búast við að fjárfesting innlendra aðila í erlendum verðbréfum verði áfram töluverð á næstu mánuðum en að úr henni dragi á seinni hluti ársins með lækkandi gengi krónunnar.