Samkvæmt tölum frá Seðlabankanum nema nettó kaup innlendra aðila á erlendum verðbréfum rúmum 6,6 mö.kr. það sem af er ári. Er þetta mun lægra en var fyrir ári síðan en þá höfðu innlendir aðilar fjárfest nettó fyrir 13,8 ma.kr. Stærstur hluti erlendrar fjárfestingar á árinu er frá því í febrúar eða 5,2 ma.kr. nettó. Fjárfestingum var aðallega beint í hlutdeildarskírteini verðbréfasjóða eða tæpum 5,3 mö.kr. og nettó fjárfesting í skuldabréfum nam 1,3 ma.kr. Hins vegar var um nettó innlausn á hlutabréfum að ræða í mánuðinum segir í Morgunkorni Íslandsbanka.

Hugsanlegt er að þetta endurspegli væntingar fjárfesta um tiltölulega lága ávöxtun á erlendum hlutabréfum á árinu (spá markaðsaðila í USA 4,1% ávöxtun). Því er líklegt að fjárfestar séu að leita eftir áhættudreifingu í verðbréfasafni sínu í erlendum eignum með fjárfestingu í hlutdeildarskírteinum verðbréfasjóða. Þrátt fyrir minni erlendar fjárfestingar það sem af er ári, miðað við sama tíma í fyrra, má gera ráð fyrir því að þær muni verða töluverðar á árinu, ekki síst í ljósi sterkrar stöðu krónunnar um þessar mundir.

Byggt á Morgunkorni Íslandsbanka.