Hnökrar voru í erlendum viðskiptum íslenskra fyrirtækja í dag, að því er fram kom í máli Geirs H. Haarde forsætisráðherra á blaðamannafundinum í Iðnó í dag. Hann kvaðst hafa beðið Seðlabankann að gera ráðstafanir til að tryggja að slík viðskipti kæmust aftur í eðlilegt horf.

„Einhver íslensk fyrirtæki telja að það sé verið að taka út á þeim einhverja óánægju sem skapast hefur vegna íslensku bankanna erlendis," sagði Geir. „Út af þessu vil ég taka sérstaklega fram að ég hef falið Seðlabankanum að gera ráðstafanir sem geti tryggt það að öll almenn viðskipti fari fram með eðlilegum hætti. Bankinn mun ganga þannig frá þeim málum að þegar í fyrramálið verði allri óvissu hvað þetta varðar eytt," sagði hann.

„Það er verið að ganga frá ábyrgðaryfirlýsingu, sem kæmi þá til viðbótar yfirlýsingum viðskiptabankanna, þannig að hér verði ekki vandamál hvað þetta atriði varðar. Seðlabankinn hefur jafnframt og mun tryggja að strax eftir helgi verði öll venjuleg bankaviðskipti milli landanna komin í eðlilegt horf, og er að semja við aðila um að annast þá greiðslu, að því marki sem upp á vantar hjá öðrum aðilum."