Áætlaðar afborganir þjóðarbúsins af erlendum lánum á þessu ári og næstu sex árum nema alls 679 milljörðum króna samkvæmt samantekt Seðlabankans. Í ár nema afborganirnar 77 milljörðum króna, þær verða 83 milljarðar á næsta ári og 134 milljarðar árið 2015. Hámarki ná afborganirnar svo árið 2016 þegar þær munu nema alls 213 milljörðum króna.

Af þessum 679 milljörðum króna sem þjóðarbúið þarf að greiða af næstu sjö árin eru 589 milljarðar afborganir af skuldum Seðlabankans, Ríkissjóðs, fyrirtækja með ríkisábyrgð og sveitarfélaganna og fyrirtækja í þeirra eigu. Árið 2016 munar til dæmis mest um 130 milljarða afborganir af erlendum skuldum ríkissjóðs.

Í sérriti Seðlabankans um skuldastöðu þjóðarbúsins segir að vandi íslenska þjóðarbúskaparins sé greiðsluvandi í erlendum gjaldmiðlum fremur en skuldavandi. Segir þar að mat á undirliggjandi viðskiptajöfnuði bendi til þess að þjóðarbúskapurinn í heild muni skapa nægar gjaldeyristekjur til að standa undir þáttagjöldum næstu ára án gengislækkunar og að jafnvel sé nokkurt svigrúm til skuldalækkunar. Í þeim skilningi séu skuldirnar sjálfbærar þótt þær séu þjóðinni töluvert þungur baggi.

Þrátt fyrir að skuldir séu sjálfbærar í ofangreindum skilningi geta þjóðir glímt við alvarlegan greiðslujafnaðarvanda. Svo er í tilfelli Íslands að mati Seðlabankans. Í sérritinu segir að greiðslujafnaðarvandi sé til staðar ef viðskiptajöfnuður, þ.e.a.s. mismunur þess sem eftir stendur þegar vextir, arður og laun erlendra aðila hafa verið greidd, dugir ekki til þess að standa undir fyrirsjáanlegum afborgunum erlendra lána og öðru útstreymi að teknu tilliti til mótsvarandi innstreymis fjármagns.

Til þess að hægt verði að komast í gegnum nokkurra ára tímabil þungra endurgreiðslna án þess að gengið gefi verulega eftir, jafnvel á meðan fjármagnshöft eru til staðar, þarf að mati Seðlabankans annað hvort að eiga sér stað endurfjármögnun töluverðs hluta skuldarinnar eða mótsvarandi hreint fjármagnsinnstreymi. Um báða þessa þætti sé mikil óvissa.

Stöðugleiki krónunnar kann að vera háður því að endurfjármögnun náist á a.m.k. hluta þeirra skulda sem falla á gjalddaga á næstu árum, eða annað fjármagnsinnstreymi komi til mótvægis, jafnvel þegar gert er ráð fyrir engu útflæði „hvikra“ krónueigna erlendra aðila eða krónueigna búa fallinna fjármálafyrirtækja (innlánsstofnana í slitameðferð). Það getur því að mati Seðlabankans komið til nokkurs greiðslujafnaðarvanda þrátt fyrir fjármagnshöft.