Erlendar eignir lífeyrissjóða voru 789 milljarðar króna í maí og lækkuðu þær um 27 milljarða króna eða niður í 761 milljarð króna frá því í apríl að því er kemur fram í nýjum hagtölum Seðlabanka Íslands.

Eignir lífeyrissjóða námu 3.633 milljarða króna í lok seinasta mánaðar og höfðu þær hækkað um 28 milljarða króna frá síðasta mánuði. Þar af voru eignir samtryggingadeilda 3.308 milljarðar króna og séreignadeilda 353 milljarðar króna.

Í lok maímánaðar námu innlendar eignir lífeyrissjóðanna 2.872 milljarða króna. Þar af voru innlán í innlendum innlánastofnunum 132 milljarðar króna og markaðsverðbréf námu 2.599 milljörðum króna. Aðrar skuldir lífeyrissjóða námu 5 milljörðum króna og því nam hrein eign þeirra 3.656 milljörðum króna í lok maí.

Tekið er fram á vefsvæði Seðlabankans að ekki liggi fyrir endanlegt uppgjör sjóðanna og því er um að ræða bráðabirgðatölur sem geta tekið breytingum. Breytingar verða gerðar eftir því sem endurskoðun lífeyrissjóðanna liggur fyrir.

Virðast flýta sér hægt

Í umfjöllun Viðskiptablaðsins frá því í maí kemur fram að stærstu lífeyrissjóðir landsins segi að fullt afnám fjármagnshafta feli fyrst og fremst í sér aukinn sveigjanleika. Lífeyrissjóðirnir hafa flýtt sér hægt í auknar erlendar fjárfestingar í kjölfar fulls afnáms fjármagnshafta.

Eftir að höftin voru sett í kjölfar hrunsins fengu lífeyrissjóðirnir engar heimildir til nýfjárfestinga erlendis þar til á miðju ári 2015, er þeir fengu 10 milljarða króna skammtíma undanþágu frá höftum. Áfram var bætt við þessar heimildir eftir því sem staða þjóðarbúsins batnaði, en misjafnt var eftir sjóðum hvort þeir nýttu allar heimildir sínar. Í lok árs 2016 fengu lífeyrissjóðirnir 100 milljarða króna erlenda fjárfestingarheimild frá Seðlabankanum fyrir þetta ár áður en höftin voru afnumin.