*

þriðjudagur, 22. júní 2021
Innlent 14. september 2020 19:30

34% eigna lífeyrissjóða erlendis

Af 5.500 milljarða eignum lífeyrisjóða Íslendinga eru 1.900 milljarðar króna í erlendum eignum. Hlutfallið hefur aldrei verið hærra.

Ritstjórn
Aðrir ljósmyndarar

Heildareignir íslenskra lífeyrissjóða, bæði samtryggingar- og séreignasparnaðar námu 5.516 milljörðum, eða um 5,5 billjónum, íslenskra króna við lok annars ársfjórðungs samkvæmt samantekt Fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands. Hafði þá lífeyrissparnaðurinn aukist um 343 milljarða króna á ársfjórðungnum.

Af heildarverðmætinu þann 30. júní síðastliðinn nam verðmæti erlendra eigna sjóðanna samsvarandi 1.870 milljörðum, eða tæplega 1,9 billjónum, íslenskra króna, eða 34% heildareignanna, en það hlutfall hefur aldrei verið hærra.

Gengi krónunnar hefur lækkað umtalsvert sem jafnframt hefur aukið verðmæti erlendra eigna lífeyrissjóðanna, en nú hefur Seðlabankinn hafið að kaupa krónur fyrir allt að 5,5% gjaldeyrisvaraforðans til að styrkja gengi krónunnar á ný.

Erlendu eignirnar 36% af samtryggingarhlutanum

Heildareignir samtryggingarhluta lífeyrissjóðanna námu 4.722 milljörðum króna, eða 4,7 billjónum, við lok annars ársfjórðungs, sem er hækkun um 300 milljarða króna á fjórðungnum, en 472 milljarða á einu ári eða 10,9%.

Erlendu eignir samtryggingarhlutans námu 1.680 milljörðum króna, eða 1,7 billjónum, sem er aukning um 172 milljarða króna,Hlutfall erlendu eigna samtryggingarhlutans hefur líkt og heildarinnar aldrei verið hærra eða 36%, í lok ársfjórðungsins.

Séreignasparnaðurinn óx hraðar

Heildareignirnar í séreignasparnaðinum sem er í vörslu lífeyrissjóðanna námu 794 milljörðum króna, sem er aukning um 43 milljarða á tímabilinu, en dregið hefur úr aukningunni milli ársfjórðunga vegna aukinna heimilda til úttektar á séreignasparnaðinum.

Heildaraukningin á einu ári nam 86,5 milljörðum króna, eða 12,2%. Erlendu eignir séreignahlutans námu 189 milljörðum við lok ársfjórðungsins sem nemur 24% heildareigna þeirra, en erlendu eignirnar jukust um 20 milljarða á ársfjórðungnum.

Stikkorð: Lífeyrissjóðir eignir erlendar