Hrein eign lífeyrissjóðanna til greiðslu lífeyris nam 2.680 milljörðum króna í lok mars. Það var 14,3 milljarða aukning á milli mánaða. Þar af námu erlendar eignir lífeyrissjóðanna 22%. Þetta er svipað hlutfall og um mitt ár 2005. Til samanburðar hefur hlutfallið verið 21,3% síðan mælingar Seðlabankans hófust. Ef litið er til sögulegrar þróunar erlends eignarhalds lífeyrissjóðanna fór hlutfall erlendra eigna lífeyrissjóðanna hæst í 32,6%. Það var í nóvember árið 2008. Á þeim tíma hafði gengi krónu lækkað talsvert auk þess sem markaðsvirði innlendra eigna féll sem þrýsti þar með upp hlutfalli erlendra eigna.

Greining Íslandsbanka fjallar um fjárfestingar lífeyrissjóðanna í Morgunkorni sínu í dag.

Þar segir m.a. að við þetta mætti bæta skráðum hlutafélögum að því marki sem tekjur þeirra eru í erlendum gjaldeyri enda myntáhætta þeirra fjárfestinga ekki einskorðuð við krónur.