„Í raun er þetta ennþá bara á hugmyndastiginu. Hins vegar vitum við af því að erlend fyrirtæki eru að búa til vöru úr eldgosinu í Holuhrauni og í samvinnu við innlenda aðila munu þau koma með ferðamenn inn á svæðið um leið og það opnast,“ segir Arnheiður Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri Markaðsstofu Norðurlands, í samtali við Fréttablaðið í morgun.

Almannavarnir halda þó enn uppi lokunum á svæðinu en Arnheiður segir menn bíða átekta á meðan.

Einar Pétur Heiðarsson, sérfræðingur hjá Almannavörnum, segir hins vegar að ásókn ferðamanna á gosstöðvarnar sé mikið rædd og lokanir séu í stöðugri endurskoðun. „Á meðan vísindamenn telja enn hættu á að það fari að gjósa undir jökli teljum við engar forsendur fyrir því að aflétta lokunum á svæðinu. Það er enn talin hætta á því svo við höldum svæðunum lokuðum.“