Samkvæmt upplýsingum frá Seðlabanka Íslands nam hrein fjárfesting innlendra aðila í erlendum verðbréfum 3,8 mö.kr. í maí. Þar af var fjárfest fyrir 2,8 ma.kr. í erlendum verðbréfasjóðum, 600 m.kr. í einstökum hlutabréfum og um 500 m.kr. í einstökum skuldabréfum. Töluvert hefur dregið úr fjárfestingum í erlendum verðbréfum sl. tvo mánuði eða frá því þær náðu hámarki í mars.

Á þessu er vakin athygli í Vegvísi Landsbankans en á fyrstu fimm mánuðum þessa árs hafa innlendir aðilar fjárfest erlendis nettó fyrir 30,4 ma.kr. sem eru mestu fjárfestingar frá upphafi yfir sambærilegt tímabil. Í fyrra námu erlendar fjárfestingar t.a.m. 12,1 á fyrstu fimm mánuðum ársins og 45,5 ma.kr. fyrir árið í heild. Fjárfestingar á árinu 2000 koma næst fjárfestingum í ár, en þær námu 23,5 mö.kr. á fyrstu fimm mánuðum ársins.