Íslendingar eiga að hætta að bíða eftir stjórnvöldum og líta frekar nær sér þegar leitað er leiða til að auka hagvöxt á Íslandi. Þetta segir Svana Helen Björnsdóttir, formaður Samtaka iðnaðarins, í aðsendri grein í Fréttablaðinu í dag.

Svana segir að vilji menn auka hagvöxt sé best að líta fyrst til þeirrar verðmætasköpunar sem nú þegar á sér stað í landinu. „Iðnaðurinn aflar um helmings útflutningstekna landsins og skapar að jafnaði tæplega fjórðung af landsframleiðslu íslensku þjóðarinnar. Í iðnaði starfar ennfremur um fimmtungur þeirra sem eru starfandi á íslenskum vinnumarkaði.“

Svana segir hvað mesta vaxtarmöguleika atvinnugreina hér á landi liggja í tækni- og hugverkaiðnaði. Það gefi auga leið að skynsamlegast sé að sé að byggja á því sem þegar er til staðar og góð reynsla sé af. „Betri sérfræðinga en þá sem nú starfa í fyrirtækjum landsins finnum við vart hér á landi. Það er miklu nærtækara að fela hæfu rekstrarfólki slík verkefni en ætlast til að eingöngu stjórnvöld og erlendar fjárfestingar skrifaðar í skýin leysi hagvaxtarvandann.“

Þá hvetur Svana til þess að horft sé til nýsköpunar og verðmætasköpunar sem nái út fyrir hefðbundnar starfsgreinar og um leið þvert á þær. Hún segir þá múra sem byggðir hafi veri verið til varnar atvinnugreinum landsins e.t.v. hindrun í þeirri nýju sköpun sem þarf að eiga sér stað. „Í Samtökum iðnaðarins eru menn reiðubúnir til að starfa saman að settu marki. Þar bíða menn ekki eftir stjórnvöldum, heldur láta verkin tala.“

Grein Svönu í heild sinni má lesa hér .