Ríkisstjórn Bandaríkjanna og framkvæmdarstjórn Evrópusambandsins hafa lýst yfir miklum áhyggjum yfir nýrri reglugerð í Kína sem takmarkar dreifingu á erlendu fjölmiðlaefni þar í landi.

Bandarísk yfirvöld segja að reglugerðin sé mikið áhyggjuefni og að muni hafa veruleg áhrif á innleiðingu upplýsingasamfélags í Kína. Framkvæmdarstjórn Evrópusambandsins fordæmdi reglugerðina á mánudag og sagði hana verulegt áhyggjuefni.

Reglugerðin var fyrst kynnt um helgina, en samkvæmt henni þurfa fréttastofur á borð við Reuters, Dow Jones og Bloomberg að ritskoða efni sem þeir senda til landsins. Fréttastofum verður einnig óheimilt að selja fréttaefni beint til viðskiptavina, svo sem banka og fjármálastofnana.

Samkvæmt reglugerðinni er kínverskum yfirvöldum heimilt að banna fréttaefni sem stefni heiðri þjóðarinnar eða þjóðinni sjálfri í hættu, hafi áhrif á efnahag landsins eða særi borgara þess.

Fréttastofurnar hafa lítið tjáð sig um málið, en talsmaður einnar þeirra, sem ekki vildi segja til nafns, segir stóra spurningu, sem eftir eigi að svara, hvort reglugerðin muni einnig ná til fjármálaupplýsinga sem berast á milli þjóða.