*

þriðjudagur, 21. september 2021
Innlent 26. janúar 2021 17:55

Allt að 2.840% hækkun á útboðsgjaldi

Endurhvarf til eldri reglna tugfaldar útboðsgjald innfluttra búvara. Meðvituð ákvörðun um hækkun vöruverðs að mati FA.

Ritstjórn
Erlendis eru ýmis konar pylsur og skinkur í boði sem hafa verið dýrar hér á landi, en eftir lækkun í kjölfar breyttra reglna mun afturhvarf til fyrri reglna þýða nærri 30 falda hækkun útboðsgjaldsins.
epa

Útboðsgjald tollkvóta fyrir innflutning búvara er í einu tilfelli 28 sinnum hærra en í síðasta útboði eftir endurhvarf til fyrri reglna um útboðið. Gjaldið hækkaði í öllum tilfellum nema í ostum þar sem það lækkar lítils háttar.

Þannig hækkar gjald fyrir nautakjötskóta um 65%, og fyrir lífrænt ræktað alifuglakjöt um 115%, meðan það tugfaldast fyrir bæði skinkur eins og áður segir og pylsur að því er Félag atvinnurekenda hefur tekið saman og hægt er að sjá í töflu hér að neðan.

Ólafur Stephensen framkvæmdastjóri FA segir að með því að breyta reglunum úthlutun á tollfrjálsum innflutningskvóta til baka séu stjórnvöld að taka meðvitaða ákvörðun um að hækka matarverð, og það á tímum mikilla þrenginga hjá mörgum heimilum þegar þúsundir þiggja atvinnuleysisbætur.

„Það verður ekki annað séð en að landbúnaðarráðherra hafi tekist vel upp í þeirri fyrirætlan sinni að hefta samkeppni á búvörumarkaði og skaða hag innflutningsverslunar og neytenda,“ segir Ólafur

Jafnframt segir Ólafur hættu á að fjármunir glatist vegna þess að úthlutunin nú seinkaði um mánuð auk þess sem gildistíminn hafi verið styttur í fjóra mánuði. Gagnrýnir félagið að tollkvótum skuli vera fyrst úthlutað þegar tæplega mánuður er liðinn af gildistíma þeirra.

„Það er erfitt að verjast þeirri hugsun að hér sé ráðuneytið beinlínis að draga lappirnar og valda innflytjendum eins miklu tjóni og mögulegt er. Fyrirtækin hljóta að íhuga að fara fram á bætur fyrir það tjón,“ segir Ólafur.

Loks er bent á það í umfjöllun FA um málið að þó innlendar afurðastöðvar hafi kvartað undan innflutningi á kjöti séu þær áfram stórtækar í innflutningi. Þannig fá innlendir svínakjötsframleiðendur um 64% tollkvótans fyrir svínakjöt. Innlendir framleiðendur kaupa einnig um 16% tollkvótans fyrir alifuglakjöt og um 10% pylsukvótans.