Gengisfall krónunnar, ásamt einhverri magnaukningu í útlánum á fyrri hluta ársins, hafa hækkað erlendar skuldir heimilanna um tæpan helming frá áramótum.

Skuldir íslenskra heimila vegna gengisbundinna lána hafa rokið upp. Höfuðstóll þeirra hefur hækkað um 47% frá áramótum, eða úr tæpum 187 milljörðum króna í rúma 275 milljarða í dag.

Mánaðarleg greiðslubyrði heimila vegna afborgana af erlendum lánum hefur því stóraukist. Þessa aukningu má að mestu leyti skýra með gengisfalli krónunnar, sem hefur veikst um tæpan þriðjung á sama tíma.

Ávallt hefur verið vitað að lán í erlendri mynt eru áhættusöm, og sveiflast höfuðstóll þeirra samhliða styrkingu og veikingu krónunnar. Það breytir því ekki að skellurinn er kominn og sitja heimilin uppi skuldsettari og með aukna greiðslubyrði mánaðarlega. Fjármálastofnanir í landinu hafa mælt með erlendum lánum sem hagkvæmari til lengri tíma og algengt er að fólk hafi tekið hluta lána í erlendri myntkörfu og hluta í íslenskum krónum.

Rökin fyrir lántöku í erlendri mynt eru m.a. þau að vextir af erlendum gjaldmiðlum eru lægri en þeir háu vextir sem bjóðast af krónum. Ókosturinn við erlenda lántöku er hins vegar gengisáhættan sem lántakendur þurfa að taka á sig. Mikilvægt er að einstaklingar sem hyggjast taka erlend lán í framtíðinni geri sér grein fyrir þeim sveiflum sem fylgja slíkum lánum og hafi svigrúm til þess að taka á þeim

______________________________________

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .