Í nýjum tölum seðlabankans um stöðu þjóðarbúsins í lok þriðja ársfjórðungs kemur fram að erlendar eignir þjóðarbúsins námu 3.911 milljörðum króna í lok ársfjórðungsins en skuldir námu 13.208 milljörðum króna. „Hrein staða við útlönd var því neikvæð um 9.297 milljarða króna og lækka nettóskuldir um tæpa 558 milljarða króna á milli ársfjórðunga. Að frátöldum innlánsstofnunum í slitameðferð námu eignir þjóðarbúsins 2.580 milljörðum króna og skuldir 2.947 milljörðum króna og var hrein staða neikvæð um 368 milljarða króna,“ segir í tilkynningu bankans.

Eignir lægri en talið var

„Seðlabankanum hafa nú borist haldbærar upplýsingar um erlendar eignir innlánsstofnana í slitameðferð en áreiðanlegar tölur um erlendar eignir hafa ekki verið til taks frá hruni.

Eins og við var að búast eru eignir innlánsstofnana í slitameðferð töluvert lægri en áður hefur verið áætlað. Við þessa breytingu versnar erlend staða þjóðarbúsins, að innlánsstofnunum í slitameðferð meðtöldum, töluvert miðað við áður birtar tölur. Þetta hefur hinsvegar engin áhrif á erlenda stöðu án innlánsstofnana í slitameðferð sem hefur haldið áfram að batna síðustu ársfjórðunga.“

Segir að endurskoðunin hafi einnig áhrif á þáttatekjur og sé þáttatekjujöfnuður, og þar af leiðandi viðskiptajöfnuður, lakari en áður var mælt. Endurskoðunin hafi þó engin áhrif á viðskiptajöfnuð án innlánsstofnana í slitameðferð.