Erlendar skudlir þjóðarbúsins, að frátöldum innlánsstofnunum í slitameðferð, námu 3.131 milljörðum króna í lok síðasta árs. Það er um 209% af landsframleiðslu ársins 2009. Greining Íslandsbanka fjallar um erlendar skuldir þjóða heimsins í morgunkorni sínu í dag og segir að erlend skuldastaða Íslands sé rétt í meðaltali þess sem sjá má meðal þróaðra ríkja.

Um er að ræða skuldir innlendra aðila í erlendri mynt, bæði einkaaðila og opinberra aðila, við erlenda aðila. Í morgunkorninu segir að í árslok 2007 námu erlendar skuldir þjóðarbúsins 8.181 milljörðum króna eða 629% af landsframleiðsu þessa árs samkvæmt upplýsingum frá Seðlabankanum.

„Í alþjóðlegum samanburði eru erlendar skuldir Lúxemborgar og Írlands hvað hæstar. Í Lúxemborg eru þær 3.854% af landsframleiðslu og á Írlandi eru þær 1004% af landsframleiðslu. Helgast há skuldahlutföll þessara landa af eðli þeirrar starfsemi sem þar er. Á eftir þeim koma Líbería með 606%, Holland með 470% og Bretland með 416%. Erlend skuldastaða Íslands er rétt í meðaltali þess sem sjá má meðal þróaðra ríkja.“

Skuldir Íslands fara lækkandi

Mælt í krónum hafa erlendar skuldir þjóðarbúsins lækkað á árinu, enda krónan styrkst um nær 11% frá áramótum. „ Þannig voru erlendu skuldirnar komnar í 3.027 ma.kr. í lok fyrsta ársfjórðungs samkvæmt upplýsingum frá Seðlabankanum og eru eflaust enn lægri nú. Má því reikna með að erlend skuldastaða þjóðarbúsins fari nokkuð undir 200% af landsframleiðslu í ár. Verður landið þar með komið í hóp hinna norðurlandanna en erlendar skuldir Dana námu  í lok síðastliðins árs 196% af landsframleiðslu,skuldir  Svía á þennan mælikvarða  eru 165% og Finna 153%,“ segir í morgunkorni Íslandsbanka.“