Erlendar skuldir ríkissjóðs voru í lok árs 2004 rúmlega 141 milljarður króna. Skipting eftir lánstíma er þannig að tæplega 128 ma.kr. eru löng lán en þar af eru rúmlega 27 ma.kr. til greiðslu á árinu 2005. Samkvæmt áætlun sem kynnt hefur verið á markaði, er stefnt að því að greiða niður 5 ma.kr. af erlendum lánum umfram nýjar lántökur á árinu 2005.

Rúmlega 13 ma.kr. (jafnvirði 221 milljónir USD) eru víxlar sem gefnir eru út á grundvelli svonefnds ECPsamnings (e. European Commercial Paper) þar sem hámarksfjárhæð til útgáfu víxla á Evrópumarkaði er 500 milljónir USD. Þá hefur ríkissjóður einnig samning um útgáfu víxla á Bandaríkjamarkaði, svonefndan USCP-samning (e. United States Commercial Paper) fyrir allt að 1.000 milljónir USD.

Myntsamsetning erlendra lána ríkissjóðs hefur verið að breytast á
undanförnum árum og hefur miðast við að færa hana nær samsetningu á s.k. landavog en á henni er gengisvísitala íslensku krónunnar byggð.

Undanfarin ár hefur vægi evru í lánasafninu þess vegna verið að aukast jafnt og þétt. Hlutfall evru var í árslok 2004 50%. Hlutfall Bandaríkjadals var á sama tíma 27%, bresks punds 11%, japansks jens 8% og svissfranka 4%.
Skipting lána á milli fastra og breytilegra vaxta hefur verið að breytast.
Hlutfall fastra vaxta af heildarlánum hefur verið að aukast og var hlutfallið
44,4% í árslok 2004. Hefur það verið gert ekki síst vegna lágra langtímavaxta á markaði, auk almennra sjóðstýringaþátta.