Umræðan í kjölfar tilkynningar sölu á Mílu hefur ekki komið á óvart og snúist að stórum hluta um að verið sé að selja innviði, byggða upp af þjóðinni, til erlendra auðmanna. Forveri Símans, Landsíminn, var einkavæddur árið 2005 en sé salan núvirt, með tilliti til arðgreiðslu sem ríkið fékk skömmu fyrir sölu, nemur hún ríflega 150 milljörðum. Þá má ráða af upplýsingum frá Mílu að félagið hafi fjárfest í nýrri búnaði fyrir hátt í 50 milljarða. Enn fremur hafi lífeyrissjóðirnir hagnast vel á hækkandi hlutabréfaverði félagsins.

„Auk þess hefur opinbert félag lagt hér annað sett af fjarskiptastrengjum. Meirihluti heimila hefur því kost á að versla við annað félag ef því sýnist svo. Þess utan eru þrjú farsímakerfi á Íslandi, sem sumir nýta eingöngu í stað fastlínutenginga,“ segir Orri Hauksson, forstjóri Símans.

Orri bendir enn fremur á að ekki er langt liðið frá því að stór hluti Mílu í eigu erlendra aðila. Skemmt er þá að minnast sjóðanna Eaton Vance, Landsdowne og fleiri sjóða en þegar mest lét var um fjórðungur Símans, og þar með Mílu, í eigu umræddra sjóða. „Allir angar starfsemi fyrirtækisins eru enn fremur undir miklu og stöðugu lögbundnu eftirliti stjórnvalda, bæði hvað fjarskiptaog upplýsingaöryggi varðar, og það er ekkert að fara að breytast með breyttu eignarhaldi,“ segir Orri

Ekki sjálfkrafa áhrif á sáttir og kvaðir

Sem kunnugt er hefur Síminn reglulega verið til skoðunar hjá Samkeppniseftirlitinu, nú síðast vegna fyrirkomulags á sölu á þjónustuvöndlum sem innihéldu enska boltann. Þá eru í gildi eldri sáttir sem meðal annars hafa átt rætur að rekja til þeirrar staðreyndar að Míla hefur verið dótturfélag Símans. „Þessar sáttir falla ekki sjálfkrafa úr gildi en að mínu viti ætti salan að hafa það í för með sér að sáttin sem byggir á eignarhaldi Símans á Mílu og fjallar um kvaðir því tengdu eigi að falla niður og að athafnafrelsi Símans á markaði ætti að snaraukast. Það hafa verið alls kyns kvaðir á Mílu og Símanum en við teljum nú að félagið ætti nú að hafa sambærilegri samkeppnisramma og önnur fyrirtæki á þessum markaði,“ segir Orri að lokum.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .