Gengi krónunnar hefur veikst um 2,78% frá áramótum. Í síðustu viku veiktist gengið um 1,52% og endaði vísitalan í 213,83 stigum.

Í Vikulegum markaðsfréttum Íslenskra verðbréfa segir að eflaust megi rekja veikingu krónunnar frá áramótum að hluta til þess að erlendir aðilar hafa verið að flytja fé úr landi vegna vaxtagreiðslna af innlendum eignum.

„Einnig kann að vera að töf sé á innflæði tekna vegna útflutnings og að útflæði eigi sér stað ef innflutningsfyrirtæki hafa notið greiðslufrests vegna jólainnkaupanna. Hinsvegar hefur afgangur af viðskiptum verið góður og ekkert sem bendir til annars en svo verði áfram.

Skuldatryggingaálag á Íslenska ríkið hefur hækkað nokkuð frá áramótum, en á sama tíma hefur það lækkað hjá þeim ríkjum sem eru í hvað mestum vandræðum í Evrópu. Verður þetta að teljast nokkuð sérstakt þegar það er engin vafi á að ríkissjóður Íslands getur staðið við allar skuldbindingar sínar í erlendum myntum í fyrirsjánalegri framtíð.“