Svo virðist sem áhugi erlendra aðila á ríkisbréfum hafi verið fremur lítill í janúar síðastliðnum. Samkvæmt Markaðsupplýsingum sem Lánamál sendu frá sér í gær voru erlendir aðilar ekki beinir kaupendur í útboðum mánaðarins.

Fjallað er um málið í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka. Þrír flokkar voru í boði, óverðtryggðu flokkarnir RIKB12 og RIKB16 og svo hinn nýi verðtryggði flokkur RIKS31.

Í Morgunkorni segir að það megi leiða að því líkur að eignarhlutdeild erlendra aðila í ríkisbréfum hafi minnkað enn frekar í janúar. Það sé í takt við þróunina á síðasta ári.

„Þannig áttu erlendir aðilar 52% útistandandi ríkisbréfa í árslok 2009 en í lok nýliðins árs var hlutdeild þeirra komin niður í 34%. Fjárhæð útistandandi ríkisbréfa í árslok 2010, að RIKH18 undanskildu, nam rétt rúmlega 422 mö.kr.

Erlendir aðilar eiga þó enn bróðurpartinn af styttri ríkisbréfum, þ.e. þeim sem eru með gjalddaga á árunum 2011 til og með 2013. Þannig var hlutdeild þeirra í styttri ríkisbréfum 73% í lok síðasta árs, sem er aðeins lægra hlutfall en í árslok 2009 þegar þeir áttu 76% slíkra bréfa. Mest eiga þeir í stysta ríkisbréfaflokknum RIKB11, eða sem nemur 79% af útistandandi bréfum í flokknum. Jafnframt áttu þeir 74% af RIKB13 og svo 57% af RIKB12 flokknum.

Ljóst er að erlendir aðilar hafa ekki mikinn áhuga á lengri ríkisbréfum, þ.e. bréfum sem eru með gjalddaga 2019 eða síðar. Hafa þeir almennt reynst tregir til að kaupa í lengri flokkum ríkisbréfa, enda hafa þeir gjarnan haft það að markmiði að binda fé sitt sem styst hér á landi. Í lok síðastliðins árs áttu þeir 8% af útistandandi óverðtryggðum ríkisbréfum af þeim toga, en í árslok 2009 var hlutdeild þeirra 12%. Ljóst er að minnstan áhuga hafa erlendir aðilar á verðtryggða flokknum RIKS21 en sá flokkur var fyrst gefinn út í apríl síðastliðnum en í lok nýliðins árs áttu þeir rétt um 143 m.kr í flokknum eða sem nemur einungis um 0,3% af heildarstærð hans.“