Erlendir aðilar voru stórtæki í seinna ríkisútboði í síðasta mánaði þegar flokkarnir RIKB14 og RIKB16 voru í boði. Þeir keyptu allt sem í boði var í lengri flokknum og tæp 60% í þeim styttri. Í útboðinu áttu kaupendur þess kost á að greiða fyrir ný bréf með bréf sín í flokknum RIKB12 sem eru á gjalddaga 24. ágúst næstkomandi.

Í Morgunkorni Greiningar Íslandsbanka segir að búast hafi mátt við því að erlendir aðilar yrðu meðal þeirra sem mest bar á í útboðinu. Þá eru taldar líkur á að vaxtagreiðslurnar í RIKB16 hafi heillað meira en í styttri flokknum, 6,0% í RIKB16 á móti 4,75% í RIKB14.

Greiningin bendir sömuleiðis á að í lok mánaðar hafi erlendir aðilar átt rúmlega 68% af útistandi bréfum að verðbréfalánum meðtöldum í RIKB16, en 23% í RIKB14.

Bent er á að í Markaðsupplýsingum Lánamála ríkisins megi sjá að hlutdeild erlendra aðila í RIKB13 hefur stóraukist á milli maí og júní. Erlendir aðilar hafi átt um 78% af útistandandi bréfum í flokknum í lok maí, en þetta hlutfall var komið upp í rúm 85% mánuði síðar.

„Athygli vekur að verðbréfalán í RIKB13 jukust um 4 ma.kr. í júnímánuði og stóðu í tæplega 14 mö.kr. í lok mánaðarins. Flokkurinn stækkaði því í raun gagnvart markaðinum þótt útgáfu hans hafi verið hætt, og hafa útlendingar greinilega tekið þá stækkun til sín að mestu. Þá hefur krafa hans einnig lækkað umtalsvert undanfarnar vikur, og er krafan nú 2,7%. Er líklegt að þessi þróun tengist háum nafnvöxtum RIKB13-bréfanna, en þeir eru 7,25%. Eftir að lokað var fyrir gjaldeyriskaup útlendinga fyrir afborganir af höfuðstól HFF-bréfa eru nafnvaxtagreiðslur af RIKB-bréfum einna drýgsta leiðin fyrir erlenda krónueigendur til að kaupa gjaldeyri fyrir hluta krónueigna sinna,“ segir í Morgunkorninu.