Verðbréfaeign erlendra aðila í íslenskum krónum hefur minnkað mikið frá upphafi faraldurins og er nú mjög lítil. Á sama tíma hefur íslenski hlutabréfamarkaðurinn rokið upp og er ávöxtun á skuldabréfum í krónum meiri en tíðkast meðal OECD-ríkja. Þetta kemur fram í greiningu Íslandsbanka.

Á seinni helmingi ársins 2020 seldu erlendir aðilar ríkisbréf upp á 51 milljarða króna. Þar munaði mest um einn stóran skuldabréfasjóð sem hafði haldið á helmingi heildareignar erlendra aðila í ríkisbréfum í upphafi árs. Um var að ræða sjóðinn Bluebay Asset Management, en sjóðurinn seldi öll bréf sín á tímabilinu.

Í kjölfar sölunnar hefur erlend eign í ríkisbréfum haldið áfram að síga niður á við, hægt og rólega, en samkvæmt gögnum Lánamálum ríkisins nam eign erlendra aðila í ríkisbréfum alls 40 milljarða í lok nóvembermánaðar sem er 4% af útgefnum ríkisskuldabréfum í krónum. Þróunina má sjá á myndinni hér að neðan, en erlendir aðilar hafa aldrei átt jafn lítinn hluta af útgefnum ríkisskuldabréfum í krónum ef tekið er mið af opinberum gögnum, samkvæmt greiningu Íslandsbanka.

Eign erlendra aðila í ríkisverðbréfum í krónum
Eign erlendra aðila í ríkisverðbréfum í krónum
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Í fyrra var meira um sölu á hlutabréfum af hálfu erlendra aðila, en ýmis erlend sjóðafyrirtæki seldu bréf sín í Arion banka. Má þar nefna sölu bandaríska vogunarsjóðsins Taconic Capital á 23,2% hlut sínum í bankanum og sölu annars vogunarsjóðs, Sculptor Capital Management, fyrir samtals 16 milljarða króna.

Í greiningu bankans segir að takmörkuð hætta sé á frekara útflæði vegna sölu eigna af hálfu erlendra aðila og að líklegra að þeir muni auka við verðbréfaeignir sínar hérlendis á komandi misserum.