Fjársterkir erlendir aðilar hafa óskað eftir viðræðum við Byggðastofnun um að kaupa eignir Eyrarodda, að því er kemur fram á vefsíðu DV .

Samkvæmt heimildum blaðsins eru aðilarnir tilbúnir að hefja útgerð og vinnslu á Flateyri. Þá herma heimildir að Íslendingur sé í hópnum en málið er þó á algjöru frumstigi.

Greint var frá því fyrir helgi að Byggðastofnun hafnaði kauptilboði útgerðarfélagsins Lotnu í fiskvinnsluna Eyrarodda á Flateyri fyrir helgi. Ástæðan var viðskiptasaga eigenda Lotnu.

Óvíst er því í hvaða farveg málið fer núna og gæti allt eins farið svo að erlendir aðilar hefji útgerð á Flateyri gangi óskir þeirra eftir, segir í frétt DV.

„Þarna var bátur kominn til að bera björg í bú og fólk komið með vinnu. Svo kemur þessi niðurstaða. Ég spyr, er verið að hafa okkur Flateyringa að leiksoppum í þessu ástandi. Maður er nánast orðlaus. Ég get ekki sagt annað,“ sagði Guðmundur Björgvinsson, formaður íbúasamtaka Flateyrar, í samtali við DV eftir að Byggðastofnun hafnaði tilboði Lotnu.