Erlendir aðilar hafa að undanförnu verið að auka við eignarhlut sinn í Existu, samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins. Kröfuhafar félagsins breyttu rúmum 300 milljörðum króna í hlutafé í október með nauðasamningi. Talið er að erlendu aðilarnir séu að veðja á að Exista vinni dómsmál um uppgjör gjaldeyrisskiptasamnings sem muni skila meiri endurheimtum til kröfuhafa en reiknað var með samkvæmt nauðasamningnum.

Exista er móðurfélag Skipta (eiganda Símans), VÍS, Lífís og Lýsingar. Auk þess á félagið óbeinan hlut í Bakkavör. Í nauðasamningsfrumvarpinu kom fram að Skipti, Lýsing og Bakkavör væru öll verulega skuldsett og lítið sem ekkert nettó virði fólgið í hlutafé þeirra sem stendur.

Skilanefnd Landsbankans hefur selt kröfu sína á hendur Existu til Arion banka. Vegna þessa hefur Magnús Magnússon látið af störfum sem stjórnarformaður Existu. Við formennsku tók Pétur J. Eiríksson.