Erlendir aðilar eiga 50% allra ríkisskuldabréfa og hafa aukið eign sína frá fyrri mánuði þegar hlutdeild þeirra nam 46,9%, segir greiningardeild Kaupþings banka.

Mesta aukningin milli mars og apríl var í eignum erlendra aðila á ríkisbréfum í flokki RIKB10 en eign þeirra í ríkisbréfum í flokki RIKB07 dróst hins vegar saman.

Eignarhlutdeild erlendra aðila á ríkisbréfum hefur verið að aukast mikið síðastliðna mánuði en þegar Lánasýslan hóf að birta upplýsingar um eignarhlutdeild þeirra um mitt ár 2005 var hlutdeild þeirra 27,4%.

Greiningardeild Kaupþings banka metur það sem svo að erlendir aðilar hafi ekki misst traust sitt á íslenska markaðnum og telur líklegt að áhugi erlendra aðila á íslenskum verðbréfum komi til með að aukast enn frekar á næstu mánuðum þar sem raungengi krónunnar hefur lækkað mikið sem af er ári og því minni líkur á verulegri veikingu gjaldmiðilsins.