Lýður Guðmundsson, stjórnarformaður Existu, sagði á aðalfundi félagsins í morgun að því mætti halda fram með haldgóðum rökum að innan Existu væru einhver öflugustu og best reknu félög á Íslandi „og vafalaust eru margir til í að komast yfir þau fyrir lítið í núverandi upplausnarástandi," sagði hann og bætti við:

„Eina vörnin gegn slíkum örlögum, sem meðal annars hefðu í för með sér erlent eignarhald og yfirráð yfir Símanum og ef til vill einnig VÍS, er að standa vörð um Exista og ná samkomulagi við lánardrottna þess."

Lýður kom víða við í ræðu sinni.

Vanhugsað og óaðgengilegt

Hann sagði þar meðal annars að allir erlendu kröfuhafar félagsins, samtals 37 alþjóðlegir bankar, hefðu lýst sig fylgjandi tillögum stjórnenda um endurskipulagningu skuldbindinga. „Margir íslensku kröfuhafanna hafa sömuleiðis fallist á forsendur áætlunarinnar og telja markmið hennar um endurgreiðslu raunhæf," sagði hann og hélt áfram.

„Því miður hefur engu að síður dregist að ganga endanlega frá samkomulaginu. Því veldur tregða í hópi nokkurra íslenskra aðila, einkum skilanefnda Glitnis og Kaupþings. Fyrirstaðan hefur einkum verið fólgin í kröfum um að lykilstjórnendur félagsins vikju til hliðar af ástæðum semekki hafa fengist skýrðar."

Hann sagði að erlendir kröfuhafar væru ekki sammála þeirri kröfu og bætti við: „Við höfum einnig talið kröfuna um að hindra lykilstjórnendur í uppbyggingu félagsins bæði vanhugsaða og óaðgengilega [...]. Ég er sannfærður um að í þeirri viðkvæmu stöðu sem félagið er í um þessar mundir sé hagsmunum kröfuhafa og félagsins best borgið með áframhaldandi starfi þessa fólks."