Fjölmargir aðilar, innlendir sem erlendir, hafa lýst yfir áhuga á að kaupa tryggingafélagið Sjóvá, að sögn Harðar Arnarsonar, forstjóra félagsins, en það er nú í 90% eigu skilanefndar Glitnis og í 10% eigu Íslandsbanka.

Hörður segir að verið sé að kanna hvort forsendur séu fyrir því að hefja sölu félagsins. „Menn vilja ekki fara af stað í söluferlið nema yfirgnæfandi líkur séu á því að það klárist," segir hann. Ferlið sjálft verði opið og gegnsætt.

Sem kunnugt er voru 16 milljarðar settir inn í félagið í sumar, af ríkinu, Glitni og Íslandsbanka í formi skuldabréfa, til að tryggja rekstur þess, og var Hörður settur yfir sem forstjóri á sama tíma.

Hann hefur hins vegar verið ráðinn sem forstjóri Landsvirkjunar og kveðst hann gera ráð fyrir því að fara þangað eigi síðar en um áramótin.

Ekki verði auglýst eftir nýjum forstjóra Sjóvár fyrr en fyrir liggur hvort félagið fari í söluferli bráðlega eða ekki. Hörður telur að það muni ráðast á næstu vikum.