Á morgun verður greint frá því hverjir hafa skilað inn skuldbindandi tilboðum í 49% hlut Íslandsbanka í Skeljungi. Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins voru erlendir aðilar meðal þeirra sem sendu inn tilboð í félagið. Eftir því sem komist verður næst hafa þessir erlendu aðilar einkum áhuga á birgðastöð félagsins í Hvalfirði en Skeljungur eignaðist hana fyrir tveimur árum.

Samkvæmt upplýsingum Viðskiptablaðsins hafa erlendir aðilar verið að skoða íslenska eldsneytismarkaðinn og síðasta vor komu hingað til lands fulltrúar kanadíska félagsins Irving Oil sem er í eigu Irving fjölskyldunnar. Sem kunnugt er hafði fjölskyldan talsverðan áhuga á að koma inn á íslenska markaðinn fyrir nokkrum árum síðan en þá varð ekki af því. Ekki liggur fyrir hvort fjölskyldan er meðal tilboðsgjafa núna en erlendir aðilar eru í tilboðshópnum.

Fyrirtækjaráðgjöf Íslandsbanka hf. sér um það formlega ferli sem lýtur að mögulegri sölu á 49% hlut í Skeljungi hf., S fasteignum ehf., Ö fasteignum og Birgðastöðinni Miðsandi ehf. sem eru í dag í eigu Miðengis ehf., dótturfélags Íslandsbanka hf. Eftir því sem komist verður næst er alt eins mögulegt að meira en 49% hlutur í félaginu verður seldur en núverandi meirihlutaeigendur munu vera skoða sína valkosti jafnframt því sem Íslandsbanki selur sin hlut.

Skuldbindandi tilboðum með fyrirvara um áreiðanleikakönnun ber að skila í síðasta lagi á morgun, mánudaginn 21. desember 2009. Skuldbindandi tilboð verða opnuð í viðurvist óháðs aðila. Í kjölfarið taka við viðræður við hæstbjóðendur.