Fjallað er um þrjátíu af umsvifamestu erlendu auðmönnunum sem fjárfest hafa í íslensku viðskiptalífi í tímariti Frjálsrar verslunar sem kom út í dag. Meðal þeirra eru fjárfestar tengdir byggingargeiranum, ferðaþjónustu, fiskeldi, verslun, sprotafyrirtækjum, fjármálageiranum sem og umsvifamiklir landeigendur.

Hér að neðan er umfjöllun um tvo á listanum.

© vb.is (vb.is)

Jim Ratcliffe: Með heila á út af fyrir sig

Breski auðjöfurinn Jim Ratcliffe ætti að vera orðinn kunnugur flestum Íslendingum. Árið 1998 stofnaði hann félagið Ineos en undir því eru nú yfir tuttugu félög og nam heildarvelta samstæðunnar 85 milljörðum dollara í fyrra.

Rattcliffe hefur löngum verið einn allra ríkasti maður Bretlands og náði nýverið inn á topp 25 yfir ríkustu menn heims, en eignir hans eru metnar á um 21,4 milljarða dollara.

Auðjöfrinum hefur verið lýst sem hlédrægum í samskiptum við fólk en hann er aðsópsmikill þegar kemur að íþróttafélögum. Hann á meðal annars knattspyrnuliðin Lausanne í Sviss og Nice í Frakklandi auk hjólreiðaliðsins Team Sky. Þá er Ineos einn helsti bakhjarl Mercedes-liðsins í Formúlu 1 og því hefur verið velt upp að hann hyggist kaupa Chelsea.

Hér heima hefur Ratcliffe verið stórtækur í jarðakaupum á Norðausturlandi og hefur hann þá helst litið til jarða sem eiga bakkametra að gjöfulum veiðiám. Má þar nefna Hafralónsá í Þistilfirði og Selá, Hofsá og Vesturdalsá í Vopnafirði. Í síðastnefndu ánni fær nú Ratcliffe einn að veiða en hann kaupir öll veiðileyfin í ánni fyrir sig. Ekki liggur nákvæmlega fyrir hve margar jarðir hann á á svæðinu en áætlað hefur verið að hann eigi um tvo tugi, ýmist að hluta eða heild.

Vincent Tan: Efnaðist eftir umdeilda einkavæðingu

Vincent Tan er aðaleigandi malasísku fyrirtækjasamsteypunnar Berjaya sem eignaðist nýlega 75% hlut í Icelandair Hotels sem og Geirsgötu 11, við Reykjavíkurhöfn.

Tan komst fyrst inn á lista Forbes yfir þá einstaklinga sem eiga meira en milljarð dollara árið 2010 en datt út af honum aftur árið 2016. Forbes áætlar að auður Tan sé um 750 milljónir dollara, jafnvirði um 100 milljarða króna.

Hinn 68 ára gamli Tan ólst upp við knöpp kjör í Malasíu en setti stefnuna snemma á að efnast af viðskiptum. 28 ára gamall tókst Tan að sannfæra McDonalds um að gefa honum sérleyfið fyrir skyndibitakeðjuna í Malasíu. Tan efnaðist gífurlega eftir að hafa eignast getraunafyrirtækið Sports Toto eftir einkavæðingu fyrirtækisins árið 1985. Málið var umdeilt í Malasíu enda var félagið selt án opins útboðs og Tan er sagður hafa átt vingott við Mahathir Mohamad, þáverandi forsætisráðherra Malasíu.

Í dag er Tan meðal annars umsvifamikill í matvælaframleiðslu, fasteigna- og fjarskiptageiranum í Malasíu og á sérleyfi að Starbucks, Wendy‘s og 7-Eleven í landinu.

Utan Malasíu hefur Tan hefur helst vakið athygli knattspyrnuáhugamanna, en hann er aðaleigandi velska knattspyrnuliðsins Cardiff City, þar sem Aron Einar Gunnarsson landsliðsfyrirliði lék í átta ár. Tan á einnig hluti í knattspyrnuliðum í Bandaríkjunum, Bosníu og Belgíu. Hjá Cardiff hefur hann verið óhræddur við að fara nýjar leiðir. Hann breytti merki félagsins úr fugli í dreka og liti búninga liðsins úr bláu í rauða við litla hrifningu stuðningsmanna liðsins enda er gælunafn félagsins Bluebirds.

Nánar má lesa um erlenda auðmenn á Íslandi í nýju tímariti Frjálsrar verslunar. Hægt er að kaupa eintak af tímaritinu hér eða gerast áskrifandi hér .