Vestrænar bankastofnanir hafa markaðsyfirráð í bankaviðskiptum í flestum ríkjum Austur Evrópu. Þetta kemur fram í úttekt MP Mola, sem MP Fjárfestingabanki gefur út. Þar kemur fram að þróunin er komin lengst í ríkjunum átta sem fengu inngöngu í Evrópusambandið árið 2004, en þar er hlutdeild erlendra lánastofnana að jafnaði 60-90%.

Þróunin er í sömu átt í ríkjunum sem munu ganga í Evrópusambandið á komandi árum en hún hefur verið hægari í Úkraínu, Rússlandi og Hvíta Rússlandi. Margt bendir hins vegar til að erlendar bankastofnanir séu að ná markaðsyfirráðum í Úkraínu og amk. 40% af eignum banka verði í eigu erlendra bankastofnana fyrir árslok 2006 segir í MP Molum.

Úkraína er eitt ríkja fyrrum Sovétríkjanna sem erlendir fjárfestar hafa sýnt aukinn áhuga. Þannig námu erlendar fjárfestingar á síðasta ári 7 milljörðum dollara en í samanburði var samanlögð fjárfesting erlendra aðila árin 1991-2004 alls 8,3 milljarða árin.

Landið er ennþá vanþróað í bankalegu tilliti. Alls eru 184 bankar starfandi í landinu en flestir eru smáir og fjárhagslega veikir. Í ársbyrjun 2005 var hlutdeild erlendra banka aðeins tæp 10% en staðan breyttist verulega þegar tveir af stærstu bönkum landins voru yfirteknir. Raiffeisen Bank keypti 91% hlut í næst stærsta banka landsins, Aval Bank og BNP Paribas 51% hlut í Ukrsibbank.

Þrátt fyrir að íbúar Úkraínu séu 47 milljónir og þjóðin sú sjötta fjölmennasta í Evrópu, þá eru heildareignir allra bankastofnana aðeins 40 milljarðar dollara, sem er svipuð fjárhæð og heildareignir KB banka voru um síðustu áramót.

Þrátt fyrir að bankakerfið hafi vaxið hratt í Úkraínu þá eru heildareignir banka í Úkraínu aðeins 43% af þjóðarframleiðslu en hlutfallið er 78% hjá nýjum aðildaþjóðum EU og 58% í Búlgaríu, Rúmeníu og Króatíu. Í Evru-landi er hlutfallið 202%. Munurinn er ennþá meiri í lánum til einstaklinga, því bankar í Úkraínu hafa lánað sem nemur 4,5% af þjóðarframleiðslu á meðan meðaltalið í Evru-landi er 50,2% segir í MP Molum.