*

þriðjudagur, 13. apríl 2021
Erlent 9. janúar 2021 12:02

Erlendir bankar ekki á leið hingað

Yfirmaður hjá Deutsche bank segir það ekki myndu svara kostnaði fyrir alþjóðlega banka að hefja starfsemi hér.

Júlíus Þór Halldórsson
Jan Olsson er framkvæmdastjóri Deutsche bank á Norðurlöndunum.
Aðsend mynd

Jan Olsson, framkvæmdastjóri Deutsche Bank á Norðurlöndunum, sér ekki fyrir sér að Deutsche Bank muni opna hér útibú, en tekur fram að það hafi lítið með möguleika landsins sem slíks að gera.

„Við sjáum ekki fyrir okkur að opna útibú í Noregi eða Finnlandi heldur, sem dæmi. Þetta snýst meira um þá nálgun sem við höfum tileinkað okkur, sem er að líta á Norðurlöndin sem eitt og sama markaðssvæðið, rétt eins og Evrópa er eitt svæði.“

Vilja aðeins keppa á sínum sérsviðum
„Við höfum ekki áhuga á að fara í samkeppni við innlenda banka. Við horfum meira á alþjóðasviðið, þar teljum við okkur geta haft samkeppnisforskot og skapað verðmæti,“ segir Jan og útskýrir að þetta eigi jafnt við um stærri lönd sem smærri.

„Við horfum Bandaríkin sömu augum: við viljum ekki vera í svæðisbundinni samkeppni, heldur viljum við hasla okkur völl þar sem styrkleikar okkar geta gefið okkur forskot. Alþjóðleg tengsl eða markaður sem við þekkjum sérstaklega vel, sem dæmi.“

Það sé því ekki þar með sagt að bankinn hafi ekki áhuga á að stunda viðskipti á Íslandi, þvert á móti hafi Jan mikla trú á Íslandi, og heimsækir landið reglulega, eða gerði meðan hann gat. „Ef þú spyrð hvort ég hafi heimsótt ykkur síðustu níu mánuði þá er svarið nei, því miður, en það er ekki vegna áhugaleysis get ég sagt þér. Þetta hefur verið erfitt ár,“ segir hann svekktur.

Sérreglur og krónan stóru hindranirnar
Jan telur líklegt að aðrir stórir alþjóðlegir bankar líti íslenska markaðinn svipuðum augum og Deutsche Bank. Erfitt yrði að opna lítið útibú hér á landi sem keppt gæti við upp undir þúsund manna bankana sem starfræktir séu hér, og yrði starfsemin umfangsmeiri yrði stóra vandamálið líklega kostnaður.

Enginn vafi leikur á því í huga hans að íslenska krónan er stór hindrun fyrir þau erlendu fjármálafyrirtæki sem gætu hugsað sér að hefja hér starfsemi. „Það væri mun auðveldara með evruna, það er einn af kostum hennar, að minnsta kosti fræðilega,“ segir hann, en bendir á að húsnæðislánavextir innan evrusvæðisins geti verið afar ólíkir milli landa.

„Af hverju hafa alþjóðlegir bankar ekki hafið samkeppni á þeim mörkuðum þar sem vextir eru hærri? Svarið er reglur. Sameiginlegur gjaldmiðill er ein forsenda þess að mynda sameiginlegt markaðssvæði með svipað vaxtastig, en hann er ekki sú eina. Ólíkar reglur milli landa og svæða eru mikil samkeppnishindrun, og húsnæðislánamarkaðir eiga það til að vera sérstaklega undirorpnir stífri reglusetningu.“

Nánar er rætt við Jan í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.

Stikkorð: Deutsche bank Jan Olsson