Ástandið á íslenskum fjármálamarkaði hefur versnað svo mjög í vikunni að nú bendir flest til þess að allt íslenska fjármálakerfið og íslenskt efnhagslíf sé hreinlega undir – ekki aðeins Glitnir.

Frá því að ríkissjóður kom Glitni til bjargar á mánudaginn var hefur allt þróast til verri vegar og íslenska krónan nánast fallið eins og steinn en það sem þó er sýnu verra er að erlendir bankar hafa kippt að sér hendinni gagnvart Íslandi líkt og það væri holdveikisjúklingur. Þannig hafa erlendar lánalínur íslenskra banka og fjármálafyrirtækja verið að þorna upp í vikunni svo heita má að aðgengi þeirra að fé erlendis sé orðið afar lítið og traustið á þeim, Íslandi og íslensku krónunni í takt við það – eða lítið sem ekkert.

Þetta endurspeglast m.a. í því að skuldatryggingaálagið á íslenska ríkið er komið yfir 800 punkta og í 1.600-1.800 punkta á íslensku bankana. Svo tekið sé dæmi, fá innlendir birgjar ekki lengur keyptar tryggingar erlendis vegna vörukaupa sinna þar og þurfa að staðgreiða. Viðskiptablaðið hefur heimildir fyrir því að slík dæmi hafi nýlega komið upp.

______________________________________

Nánar er fjallað um  málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .