Sextán erlendir bankar, sem stóðu að tveimur sambankalánum til Samsonar eignarhaldsfélags á samtals 28 milljarða króna, krefjast þess að fá afhentar innstæður á tveimur reikningum félagsins að upphæð um 380 milljónir króna. Skiptastjóri Samsonar hefur neitað kröfu þeirra þar sem hún barst eftir að kröfulýsingarfrestur var liðinn og málið verðu því afgreitt fyrir héraðsdómi Reykjavíkur þar sem það var þingfest síðastliðinn föstudag.

Bankarnir sextán vilja á móti meina að þar sem innstæðurnar eru tilteknar sem veð í lánasamningum þeirra við Samson hafi ekki verið nauðsynlegt að lýsa kröfunni. Verði krafa erlendu bankanna samþykkt mun endurheimt á kröfum almennra kröfuhafa Samsonar rýrna, en á meðal þeirra eru skuldabréfaeigendur, meðal annars fjöldi íslenskra lífeyrissjóða. Samson var í eigu feðganna Björgólfs Guðmundssonar og Björgólfs Thors Björgólfssonar áður en félagið var tekið til gjaldþrotaskipta 12. nóvember 2008.