Erlendum ríkisborgurum á Íslandi fjölgaði um 1.321 frá 1. desember síðastliðnum til 1. apríl, og voru þeir þá orðnir alls 50.665 hér á landi að því er Þjóðskrá greinir frá, eða 11,7% íbúa.

Þar af fjölgaði pólskum ríkisborgurum um 277 einstaklinga, sem samsvarar 7,7% fjölgun og hafa þeir nú náð því að vera 5,7% allra íbúa landsins, eða rétt tæplega 21 þúsund manns, en aðrir erlendir ríkisborgarar eru samanlagt 8,1%.

Næst mest fjölgun var meðal rúmenskra ríkisborgara eða 165, sem samsvarar 35,6% fjölgun, en þeir eru þriðji stærsti einstaki hópurinn með um 2.211 manns. Næst stærsti hópurinn eru hins vegar Litháar, eða um 4.742, en þeim fjölgaði um 126 manns, eða sem samsvarar 12,8% á tímabilinu.

Á sama tíma fjölgaði íslenskum ríkisborgurum búsettum í landinu fjölgaði um 663, en þeir telja nú 86,2% allra íbúa. Ríkisborgurum hinna Norðurlandanna fækkaði hins vegar, Dönum um 9, eða 3,8%, og telja þeir nú 904, Svíum um 2, eða 6,6% og eru þeir nú 366, Norðmönnum um 8, eða 5,7%, niður í 289 og loks Finnum um 5, eða 2,1%, niður í 133.

Hlutfallslega fjölgaði ríkisborgurum Venesúela langmest, eða um 307,7%, en fjöldi þeirra hefur farið úr 159 1. desember síðastliðnum, í 285, en 1. desember 2018 voru þeir 39. Nánar má sjá fjölda og fjölgun íbúa frá mismunandi löndum á töflu sem hægt er að hlaða niður af vef Þjóðskrár Íslands .